Ekki hefur verið staðið við fyrirheit ríkisstjórnarflokkana um að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Slíkt mat átti að liggja til grundvallar starfi nefndar sem vinna átti að frekari árangri og sátt. Þrátt fyrir vanefndir í þessum efnum hafa bráðabirgðatillögur um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu verið birtar undir merkjum Auðlindarinnar okkar.
Þetta er meðal þess sem fram kom í grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í Morgunblaðinu um helgina.
„Því miður læðist sá grunur að manni, að bráðabirgðatillögunum hafi verið ætlað að sneiða hjá skýru markmiði stjórnarsáttmála og auðvelda ábyrgðaraðila verkefnisins, matvælaráðherra, að velja þær hugmyndir sem best falla að hans eigin pólitísku markmiðum. Það væri þá ekki í fyrsta skipti,“ skrifar hún.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Svandís er sem ráðherra sökuð um að brjóta gegn stjórnarsáttmála. Nú síðast gerðist það er hún bannaði með nær engum fyrirvara hvalveiðar, þótt skýrt hafi verið rætt um það í aðdraganda myndun ríkisstjórnarinnar, að ekki yrði hreyft við hvalveiðum í þessu stjórnarsamstarfi.