Sagt var um afsögn Richards Nixon Bandaríkjaforseta eftir Watergate-málið, að afbrotin hefðu að endingu ekki fellt hann, heldur blekkingarleikurinn sem spannst við að hylja slóðina. Á ensku er þetta orðað svo: “It’s not the crime, it’s the cover-up.”
Þetta er ágætt að hafa í huga nú þegar málsatvik eru eitthvað að skýrast kringum handtöku Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanns Pírata, sl. föstudagskvöld. Hún hefur nú loks stigið fram og beðist afsökunar og viðurkennt að hafa drukkið of mikið og sýnt mótspyrnu og dónaskap. En sú yfirlýsing kom ekki fyrr en þingmaðurinn og fleiri innan þingflokks Pírata höfðu reynt aftur og ítrekað að afvegaleiða umræðuna, neita staðreyndum og stýra umræðunni í aðra átt.
Það er eitt og sér ekki höfuðsynd að verða það á að drekka of mikið áfengi, flestir hafa misstigið sig í þeim efnum og margir oftar en einu sinni. En að reyna með öllum hætti að neita staðreyndum, varpa sökinni á aðra og beita hreinum blekkingum er alvarlegt mál, sem allir vita að Píratar myndu ekki taka neinum vettlingatökum, ef málið varðaði ekki einmitt þeirra eigin fulltrúa.
Bara síðast í hádeginu, örfáum klukkutímum áður en Arndís Anna baðst á endanum afsökunar, sagði Björn Leví Gunnarsson, varaformaður þingflokks Pírata, málið sérstakt. Hann hafnaði því ranglega að þingmannsins hefði ekki verið getið í dagbók lögreglu og sagði svo: „Þetta er mjög undarlegt þegar allt kemur til alls. Þetta eru mjög hörð viðbrögð hjá dyravörðum, en annað er tiltölulega eðlilegt,“ segir Björn í samtali við Vísi aðspurður um hvernig málið blasi við sér. Sagði hann að málið hefði ekki frekari afleiðingar og bætti svo við: „Þetta er mjög vel útskýrt og öll málsatriði augljós og útskýranleg, nema kannski viðbrögð dyravarðanna.“
Það var og. Annað hvort sagði Björn Leví hér blákalt ósatt. Eða hann var beinlínis blekktur af samstarfsmanni sínum. Flóknara er það ekki. Og allir, nema kannski Píratar, sjá það í hendi sér.
„Dapurt að verða vitni að þessu leikriti“
Kristján Johannessen, blaðamaður á Morgunblaðinu, greinir stöðuna ágætlega í færslu á fésbókinni í kvöld, þar sem hann segir:
„Mikið er þetta dapurt. Fyrstu viðbrögð kjörins fulltrúa á Alþingi eftir að í ljós kom að viðkomandi var handtekinn í ölvímu voru þau að kenna dyravörðum á skemmtistað um „óþarflega niðurlægjandi“ hörku. Var það gert í samtali við mbl.is.
Síðar sagði Píratinn atburðarásina „kannski hafa undið upp á sig“ sem svo leiddi til þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, sem almennt forgangsraðar í útköll vegna manneklu og álags, handtók viðkomandi. Var þá búið að snúa þingmanninn niður – auðvitað ekki vegna þess að hann var drukkinn og æstur, heldur vegna þess að dyraverðirnir voru með vesen. Svo þakkaði hinn handtekni lögreglu fyrir handtöku á sjálfum sér. Kannski til að minnka upplýsingaleka þaðan og kasta ryki í augum fólks.
Þegar fjölmiðlar gengu harðar á þingmanninn og ljóst var að hvorki almenningur né fjölmiðlar kaupa leikritið var ákveðið að hlaða í status á samfélagsmiðlum – auðveld leið til að reyna að stjórna umræðunni.
Þar kom m.a. fram að eigendur skemmtistaðarins hafi beðið þingmanninn afsökunar og ítrekað að dyraverðir hafi verið dónalegir í sinni framkomu. Var því þó bætt við að þingmaðurinn hafi mikinn skilning á erfiðu starfi dyravarða, þeir þurfi jú að taka á fólki við misjafnar aðstæður. Færslunni er svo lokið með þeim orðum að viðbrögð lögreglu „ylji þingmanninum inn að hjartarótum“. Sér samt ekki eftir neinu.
Sögunni lýkur þó ekki hér og fjölmiðlar halda áfram. Þá verður þingmaðurinn frekar fúll í samtali við mbl.is og segir það ekki koma almenningi við þegar kjörinn fulltrúi er handtekinn af lögreglu. „Ég var ekki að gera neitt sem fólki kemur við,“ sagði Píratinn og neitaði að tjá sig frekar. Óttaleg frekja í þeim sem vilja fá fram sannleikann í málinu.
En svo gerist allt í einu eitthvað. Píratinn viðurkennir óvænt að hafa verið bæði ofurölvi og dónalegur í garð fólks. Einnig eru viðurkennd einhvers konar átök á milli Píratans og dyravarða – þið munið, þessir sem voru svo dónalegir að kalla á lögregluna. Að auki sagðist þingmaðurinn hafa beðið fólk afsökunar, var áður í því hlutverki að taka á móti afsökunarbeiðnum.
Hvað veldur þessum skyndilega viðsnúningi? Skiptir svo sem ekki öllu.
Í siðareglum Alþingis, sem Píratar börðust svo mjög fyrir, segir m.a. að alþingismenn skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Ef þessi atburðarás gerir það ekki þá eru þessar reglur óþarfar. Og já, þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingmenn þessa sama flokks virða siðareglurnar að engu.“
Og Kristján segir að endingu: „Aftur, dapurt að verða vitni að þessu leikriti.“